Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 19/2021

Úrskurður 19/2021

 

Þriðjudaginn 28. desember 2021 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með erindi, dags. 13. nóvember 2020, [...] (hér eftir nefndur kærandi), til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar frá 20. ágúst 2020 um greiðsluþátttöku í dvalarkostnaði á hjúkrunarheimili. Kærandi telur að leiðrétta eigi útreikning Tryggingastofnunar á kostnaðarhlutdeild hans í dvalarkostnaði á hjúkrunarheimili.

 

I. Málsmeðferð ráðuneytisins.

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 20. ágúst 2020, um kostnaðarhlutdeild  kæranda í dvalarkostnaði á hjúkrunarheimili. Þeirri ákvörðun Tryggingastofnunar vill kærandi ekki una og kærði hana 9. nóvember 2020 til úrskurðarnefndar velferðarmála. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála falli það utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um ágreining um greiðsluþátttöku í dvalarkostnaði, taldi nefndin ákvörðunina kæranlega til félagsmálaráðuneytisins og framsendi kæruna til félagsmálaráðuneytisins. Að mati félagsmálaráðuneytisins varðar ágreiningurinn ákvörðun  um greiðsluþátttöku í dvalarkostnaði á hjúkrunarheimili. Tryggingastofnun annist framkvæmd útreiknings á tekjum skv. lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, en sjúkratryggingastofnunin greiði hjúkrunarheimilunum dvalarframlagið. Um greiðsluþátttökuna fari skv. lögum um málefni aldraðra og reglugerð um stofnanaþjónustu fyrir aldraða, nr. 1112/2006. Félagsmálaráðherra fari með málefni aldraðra skv. forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 125/2021, en hjúkrunarheimili falli undir heilbrigðisráðherra. Félagsmálaráðuneytið framsendi því kæruna með bréfi, dags. 30. nóvember 2020, til heilbrigðisráðuneytisins, sbr. einnig 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Heilbrigðisráðuneytið óskaði eftir umsögn og frekari gögnum um kæruna frá Tryggingastofnun með bréfi, dags. 30. desember 2020. Tryggingastofnun óskaði eftir fresti til að skila umsögn, ráðuneytið veitti frest og tilkynnti kæranda með tölvupósti, dags. 28. janúar 2021, um frestveitinguna. Umsögn Tryggingastofnunar og fylgigögn bárust með bréfi, dags. 5. febrúar 2021. Heilbrigðisráðuneytið sendi kæranda umsögn stofnunarinnar til umsagnar með bréfi, dags. 11. febrúar 2021, kærandi sendi ráðuneytinu umsögn með bréfi dags. 17. febrúar 2021. Í kjölfarið tók heilbrigðisráðuneytið málið til úrskurðar.

 

II. Málavextir.

Kærandi fór í varanlega dvöl á hjúkrunarheimili þann 14. ágúst 2020.  Samkvæmt 22. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, skal heimilismaður sem hefur tekjur, sbr. 26. gr., umfram 74.696 kr. á mánuði taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á stofnun fyrir aldraða. Þó skuli greiðsluþátttaka hans aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur daggjöldum á stofnun eins og samið hefur verið um skv. IV. kafla laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, sbr. þó 24. gr. laganna.

 

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 20. ágúst 2020, var kæranda tilkynnt um útreikning stofnunarinnar á hlutdeild hans í dvalarkostnaði. Kærandi telur um rangan útreikning sé að ræða og telur að ekki skuli telja viðbótarlífeyrin hans til tekna. Kærandi kærði ákvörðun Tryggingastofnunar.

 

III. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru er þess krafist að Tryggingastofnun leiðrétti útreikning á hlutdeild í dvalarkostnaði. Kærandi krefst þess að Tryggingastofnun reikni með réttum lífeyrissjóðstekjum sem kærandi hafi frá Noregi. Kærandi vísar til 2. mgr. 26. gr. í lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, sem kveður á um að bætur frá lífeyristryggingum almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og sambærilegar greiðslur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við teljist ekki til tekna.

 

Í bréfi til kæranda frá NAV (Arbeids- og velferdsetaten) í Noregi, dags. 12. október 2020, eru tilgreindar tekjur hans úr lífeyrissjóði og almannatryggingum þar í landi. Fram kemur að kærandi fái greiðslur vegna lífeyrisréttinda sinna í Noregi. Að mati kæranda eiga lífeyrisgreiðslur og viðbótarlífeyrissjóðsgreiðslur frá almannatryggingum í Noregi ekki að teljast með sem tekjur við útreikning á hlutdeild hans í dvalarkostnaði, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga um málefni aldraðra.

 

IV. Málsástæður og lagarök Tryggingastofnunar.

Í umsögn Tryggingastofnunar er bent á að í 5. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, komi fram að ef elli- eða örorkulífeyrisþegi dvelst lengur en í mánuð samfellt á sjúkrahúsi sem er á föstum fjárlögum fellur lífeyrir hans og bætur honum tengdar niður ef dvölin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði. Ef ljóst sé frá upphafi að um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými öldrunarstofnunar sé að ræða falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar.

 

Tryggingastofnun hafi fengið þær upplýsingar frá Sjúkratryggingum Íslands að frá 14. ágúst 2020 hafi kærandi verið íbúi á hjúkrunarheimili. Þegar um varanlega búsetu á hjúkrunarheimili sé að ræða falli lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf búsetu og greiðsluþátttaka í dvalarkostnaði hefst. Þátttakan er tekjutengd og er reiknuð út á grundvelli tekjuáætlunar. Þátttaka kæranda í dvalarkostnaði hafi verið kynnt honum í bréfi stofnunarinnar dags. 20. ágúst 2020. Lífeyrisgreiðslur til kæranda höfðu þegar verið stöðvaðar frá 1. október 2019, sbr. bréf dags. 17. júlí 2019, þar sem upplýsingar um tekjur erlendis frá fyrir árið 2018 vantaði.

 

Tryggingastofnun bendir á að í 22. gr. laga um málefni aldraðra segi að heimilismaður sem hafi tekjur, sbr. 26. gr., umfram 74.696 kr. á mánuði skuli taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á stofnun fyrir aldraða. Þó skuli greiðsluþátttaka hans aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur daggjöldum á stofnun eins og samið hefur verið um skv. IV. kafla laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, sbr. þó 24. gr. laga um málefni aldraðra.

 

Í 26. gr. laga um málefni aldraðra segi að til tekna skv. V. kafla laganna teljist tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

 

Tryggingastofnun bendir á að þrátt fyrir 1. mgr. 26. gr. teljist ekki til tekna bætur frá lífeyristryggingum almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og sambærilegar greiðslur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Tryggingastofnun annist framkvæmd útreiknings á tekjum skv. 21. og 22. gr. og nefndri grein en Sjúkratryggingar Íslands greiði stofnunum dvalarframlag skv. 1. mgr. 21. gr. laganna.

 

Með bréfi dags. 20. nóvember 2020 hafi Tryggingastofnun tilkynnt kæranda að stofnunin hefði leiðrétt tekjuáætlun hans vegna nýrra upplýsinga frá NAV í Noregi um tekjur hans. Það hafi komið fram að þátttaka kæranda í dvalarkostnaði hefði verið endurreiknuð og hefði hún lækkað úr 384.343 kr. í 334.196 kr. á mánuði tímabilið frá 1. september 2020 til 31. desember 2020.

 

Í bréfinu voru tilteknar þær áætluðu tekjur sem útreikningur á dvalarkostnaði kæranda miðaði við. Um var að ræða erlendan lífeyri að fjárhæð NOK 227.459, lífeyrisgreiðslur að fjárhæð ISK 3.694.644 og vaxtatekjur að fjárhæð NOK 2.700 og ISK 312.276. Meðfylgjandi þessari greinargerð hafi verið sýndur útreikningur á þátttöku kæranda í dvalarkostnaði út frá þessum áætluðu tekjum kæranda.

 

Tryggingastofnun gerir aðallega athugasemdir við fjárhæð norska lífeyrisins og vaxtatekjurnar og gerir stofnunin grein fyrir því í umsögn hvernig þær tekjur voru áætlaðar í tekjuáætlun. Grunnlífeyrir (grunnpensjon) sem kærandi njóti frá Noregi hafi ekki áhrif á útreikning á greiðsluþátttöku kæranda heldur einungis viðbótarlífeyrir (tilleggspensjon) sem kærandi fái greiddan. Tryggingastofnun lítur þannig á að viðbótarlífeyrir sé sambærilegt greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og hafi áhrif á útreikning á þátttöku í dvalarkostnaði. Sú túlkun Tryggingastofnunar hafi verið staðfest hjá úrskurðarnefnd velferðarmála og áður hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, sbr. úrskurði nr. 20/2019 og 32/2012. Viðbótarlífeyririnn falli því ekki undir undantekningarreglu 2. mgr. 26. gr. laga um málefni aldraðra.

 

Tryggingastofnun telur ljóst að stofnunin hafi reiknað þátttöku kæranda í dvalarkostnaði í samræmi við lög um almannatryggingar og lög um málefni aldraðra út frá þeirri tekjuáætlun sem lá fyrir og byggð var á þeim staðfestu upplýsingum sem lágu fyrir hjá Tryggingastofnun. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur ársins liggja fyrir samkvæmt skattframtali fyrir árið 2020 geti kærandi óskað eftir endurreikningi á greiðsluþátttökunni.

 

V. Athugasemdir kæranda.

Í bréfi kæranda, dags. 17. febrúar 2021, mótmælir kærandi því sem hann telur vera lögbrot og rangfærslur af hálfu Tryggingastofnunar í máli hans sem varðar hlutdeild í dvalarkostnaði á hjúkrunarheimili.

 

Kærandi vísar til umsagnar Tryggingastofnunar þar sem fram komi að kærandi hafi aðallega gert athugasemdir við fjárhæð norska lífeyrisins og vaxtatekjurnar og hafi stofnunin gert grein fyrir hvernig þær tekjur hafi verið áætlaðar í tekjuáætlun. Kærandi bendir á að hann hafi ekki aðallega gert þær athugasemdir heldur hafi kærandi eingöngu gert athugasemdir við norska lífeyrin og vaxtatekjurnar og það sé meira en nóg.

 

Að mati kæranda fari það ekki á milli mála að í lögunum segi að bætur eða lífeyrir frá lífeyristryggingum almannatrygginga og sambærilegar greiðslur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við, skuli ekki reiknast með við útreikning á dvalarkostnaði á hjúkrunarheimilum. Viðbótarlífeyri almannatrygginga séu greiðslur frá almannatryggingakerfinu í Noregi en ekki lífeyrissjóði. Að mati kæranda eigi þessar greiðslur því ekki að reiknast með við útreikning á dvalarkostnaði á hjúkrunarheimili.

 

Kærandi bendir á að Tryggingastofnun vísi í umsögn sinni til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála, nr. 20/2019 og til úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 32/2012 sem fjalli um fjárhæð örorkulífeyrisgreiðslna á Íslandi sem voru skertar vegna viðbótarlífeyri frá einu Norðurlandanna, en í því máli hafi kærandinn ekki búið á Íslandi. Í úrskurði nr. 20/2019 sé fjallað um fjárhæð ellilífeyrisgreiðslna á Íslandi sem voru skertar með sama hætti vegna viðbótarlífeyris frá einu Norðurlandanna. Í því máli hafi úrskurðarnefndin metið hvort viðbótarlífeyrir almannatrygginga (tilleggspensjon) væri sambærilegt við bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna. Hafi úrskurðarnefnd velferðarmála litið til þess að réttur lífeyrisþega til viðbótarlífeyris almannatrygginga (tilleggspensjon) miðist við áunnin lífeyrisstig sem reiknist að meginstefnu til út frá tekjum bótaþega á vinnumarkaði og fjölda ára á vinnumarkaði, sbr. greinar 3-8 til 3-16 í norsku almannatryggingalögunum nr. 5/1997 (n. lov om folketrygd). Því miðist greiðslurnar meðal annars við þær tekjur sem bótaþegi hafi aflað á vinnumarkaði. Ellilífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar taki aftur á móti ekki mið af tekjum bótaþega á vinnumarkaði heldur búsetulengd, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar. Kærandi telur að viðbótarlífeyrir sé tengdur atvinnuþátttöku hans í Noregi.

 

Kærandi bendir á að hans mál snúist ekki um skerðingu á elli- eða örorkulífeyri heldur um það að viðbótarlífeyrir sé talinn til tekna og hafi þannig áhrif til hækkunar á greiðsluþátttöku hans í dvalarkostnaði á hjúkrunarheimili. Að mati kæranda sé viðbótarlífeyrir hans ekki tekjur úr lífeyrisjóði heldur lífeyrir úr almannatryggingakerfinu.

 

Kærandi veltir upp þeirri spurningu að ef það væri vilji löggjafans að telja viðbótarlífeyri almannatrygginga (tilleggspensjon) með til hækkunar á dvalarkostnaði, af hverju sé þá ekki löggjafinn, Alþingi, búinn að breyta 2. mgr. 26. gr. í lögum um málefni aldraðra, þegar verið sé að reikna út þátttöku einstaklinga í dvalarkostnaði á hjúkrunarheimili. Ef það væri vilji löggjafans að telja ætti viðbótarlífeyri almannatrygginga með við útreikning á dvalarkostnaði þá hlyti hann að vera búinn að breyta lögunum svo að það færi ekkert á milli mála að svo væri. Löggjafinn hafi hins vegar ekki breytt lögunum, þannig að mati kæranda blasi við hver vilji löggjafans sé en það er að telja ekki viðbótarlífeyrin með.

 

Kærandi bendir á að Tryggingastofnun ítreki að vaxtatekjur kæranda séu 312.276 kr. til viðbótar við 2.700 NOK og stofnunin miði þá upphæð við útreikning á hlutdeild kæranda í dvalarkostnaði á hjúkrunarheimili enda komi fram í umsögn Tryggingastofnunar að tekjur kæranda hafi verð áætlaðar út frá skattframtölum hans sem hafi legið fyrir frá fyrri árum. Tryggingastofnun bendi einnig á að kærandi telji að tekjur hafi verið töluvert lægri en leggi ekki fram nein gögn því til staðfestingar. Ef kærandi myndi leggja fram gögn þá geti kærandi óskað eftir endurskoðun á útreikningi á þátttöku í dvalarkostnaði vegna þeirra greiðslna.

 

Að mati kæranda fari Tryggingastofnun með rangt mál í umsögn sinni. Stofnunin segi að kærandi hafi ekki lagt fram gögn því til staðfestingar að vaxtagjöld hafi verið lægri en stofnunin hafi reiknað með. Tryggingastofnun hafi aðgang að öllum gögnum úr íslenska skattkerfinu, það er framtölum lífeyrisþega almannatrygginga. Þau gögn þurfi ekki kærandi né aðrir að leggja fram til staðfestingar. Það ætti að liggi fyrir af hálfu Tryggingastofnunar að fólk þurfi ekki að fara með eða senda skattframtöl til stofnunarinnar.

 

Kærandi bendir á að fyrirliggjandi gögn sem Tryggingastofnun hafi bæði frá íslenskum skattyfirvöldum og skattframtölum frá Noregi sem hafi verið skilað til stofnunarinnar, þá séu vaxtatekjur kæranda og dánarbúsins 76.881 kr. tekjuárið 2019 og 41.718 kr. tekjuárið 2018. Að mati kæranda hefði verið eðlilegt að Tryggingastofnunin hefði miðað við þann útreikning en ekki önnur fyrri ár.

 

Kærandi telur að ekki þurfi að biðja um endurskoðun á útreikningi á þátttöku í dvalarkostnaði vegna þeirra vaxtagreiðslna þegar skattframtal vegna ársins 2020 liggur fyrir. Kærandi krefst þess að það verði strax tekið til greina.

 

Að mati kæranda hafi Tryggingastofnun tekið ákvörðun um að hlutdeild kæranda í dvalarkostnaði hans á hjúkrunarheimili væri 384.343 kr. á mánuði, síðan 334.196 kr. á mánuði fyrir síðustu tvo mánuði ársins 2020 og síðan 360.744 kr. á mánuði nú á árinu 2021, án nokkurrar skýringar á þeirri breytingu.

 

Kærandi telur ljóst að Tryggingastofnun hafi ekki reiknað þátttöku hans í dvalarkostnaði í samræmi við lög um málefni aldraðra út frá þeirri tekjuáætlun sem lá fyrir og byggði á þeim staðfestu upplýsingum sem lágu fyrir hjá Tryggingastofnun. Allar upplýsingar liggi  fyrir til þess að Tryggingastofnun geti leiðrétt ákvörðun og ekki þurfi að bíða eftir skattframtali ársins 2021 til þess.

 

Kærandi krefst þess að viðbótarlífeyrir almannatrygginga, survivor´s pension og lump sum (eingreiðsla) frá Noregi verði felldar niður við útreikning á dvalarkostnaði. Einnig að engar vaxtatekjur verði reiknaðar með þar sem vaxtagjöld kæranda séu hærri en vaxtatekjur hans af bankainnistæðum.

 

VI. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 20. ágúst 2020, um kostnaðarhlutdeild  kæranda í dvalarkostnaði á hjúkrunarheimili.

 

Meginregla íslensks stjórnsýsluréttar er sú að heimilt er að kæra stjórnvaldsákvörðun lægra setts stjórnvalds til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt enda leiði ekki annað af lögum eða venju, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hin almenna kæruheimild byggist á stigskiptingu stjórnsýslukerfisins þar sem æðri stjórnvöld hafa yfirstjórn og eftirlit með lægra settum stjórnvöldum.

 

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, er heimilt að kæra ákvarðanir Tryggingastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála ríki ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögunum. Hið sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr. laganna. Aftur á móti er ekki mælt fyrir um heimild í lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, til að kæra til úrskurðarnefndarinnar ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra laga.

 

Almennt má ganga út frá því að ákvarðanir Tryggingastofnunar, sem ekki eru kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt sérlögum, séu kæranlegar til félagsmálaráðherra sem stofnunin heyrir stjórnarfarslega undir. Hins vegar getur undirstofnun með lögum verið fengið verkefni sem fellur undir málefnasviðs annars ráðuneytis en stofnunin heyrir stjórnarfarslega undir.

 

Samkvæmt 3. tölul. 6. gr. forsetaúrskurðar nr. 125/2021 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, fer heilbrigðisráðherra með málefni hjúkrunarheimila. Af því leiðir að heilbrigðisráðherra fer með yfirstjórn þess málaflokks og telst æðra stjórnvald gagnvart þeim stjórnvöldum sem taka stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli laga um málefni aldraðra sem lúta að hjúkrunarheimilum. Hefur heilbrigðisráðuneytið því ákveðið að taka mál þetta til efnislegrar umfjöllunar með vísun til 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

 

Ágreiningur málsins lýtur að því hvaða greiðslur til kæranda skuli teljast til tekna sem hafi áhrif á útreikning á greiðsluþátttöku kæranda í dvalarkostnaði á hjúkrunarheimili. Í 1. mgr. 22. gr. laga um málefni aldraðra kemur fram að heimilismaður sem hefur tekjur umfram 34.659 kr. á mánuði skuli taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á stofnun fyrir aldraða. Tryggingastofnun annast útreikning á tekjum og þátttöku einstaklinga í dvalarkostnaði en stofnuninni er gert að annast þá útreikninga í samræmi við lög um almannatryggingar og lög um málefni aldraðra út frá tekjuáætlunum einstaklinga sem byggð er á þeim staðfestu upplýsingum sem liggja fyrir hjá Tryggingastofnun.

 

Þegar um varanlega búsetu á hjúkrunarheimili er að ræða falla lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf búsetu og greiðsluþátttaka í dvalarkostnaði hefst. Greiðsluþátttaka kæranda í dvalarkostnaði var kynnt honum í bréfi stofnunarinnar, dags. 20. ágúst 2020. Lífeyrisgreiðslur til kæranda höfðu þegar verið stöðvaðar frá 1. október 2019, sbr. bréf frá Tryggingastofnun, dags. 17. júlí 2019, þar sem upplýsingar um tekjur erlendis frá fyrir árið 2018 vantaði.

 

Í gögnum málsins kemur fram að grunnlífeyrir ,,grunnpensjon“ sem kærandi njóti frá Noregi hafi ekki áhrif á útreikning á greiðsluþátttöku kæranda heldur einungis viðbótarlífeyrir ,,tilleggspensjon“ sem kærandi fái greiddan. Tryggingastofnun telur að viðbótarlífeyrir sé sambærilegur greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og teljist til tekna, skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þannig hafi viðbótarlífeyrin áhrif á útreikning á greiðsluþátttöku kæranda í dvalarkostnaði. Sú túlkun Tryggingastofnunar hefur verið staðfest hjá úrskurðarnefnd velferðarmála og áður hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, sbr. úrskurði nr. 20/2019 og 32/2012. Í úrskurði nr. 20/2019 fellst úrskurðarnefnd velferðarmála á mat Tryggingastofnunar að ,,tilleggspension“, eins og um ræðir í máli þessu, skuli skerða ellilífeyrisgreiðslur frá stofnuninni með sama hætti og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

 

Í ljósi ofangreinds telur ráðuneytið að viðbótarlífeyrir kæranda falli því ekki undir undanþáguna í 2. mgr. 26. gr. laga um málefni aldraðra um að teljast ekki til tekna, eins og bætur frá lífeyristryggingum almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og sambærilegar greiðslur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.

 

Að mati ráðuneytisins er ljóst að stofnunin reiknaði þátttöku kæranda í dvalarkostnaði í samræmi við lög um almannatryggingar og lög um málefni aldraðra út frá þeirri tekjuáætlun kæranda sem lá fyrir og byggði á þeim staðfestu upplýsingum sem lágu fyrir hjá Tryggingastofnun. Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Tryggingastofnunar.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 20. ágúst 2020, um greiðsluþátttöku kæranda, [...], í greiðslu dvalarkostnaðar á hjúkrunarheimili, er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum